Search
Close this search box.

Húsreglur

1. gr.

a) Íbúum er skylt að ganga þrifalega og hljóðlega um íbúðir, sameiginlegt húsrými og lóðir Nemendagarða og raska ekki að óþörfu friði og ró í húsinu. Skulu íbúar jafnan gæta þess að valda öðrum íbúum sem minnstu ónæði og taka fullt tillit til sambýlisfólks síns í allri umgengni. Íbúum er óheimilt að nota sameiginlegt húsrými eða lóð til samkvæmishalda eða annars en því er ætlað.

b) Reykingar eru ekki leyfðar í íbúðum Nemendagarða.

c) Milli kl. 23:00 og 07:00 skal ríkja kyrrð á öllum svæðum Nemendagarða. Við sérstakar uppákomur skal leita eftir samþykki næstu nágranna og umsjónarmanns Nemendagarða með að minnsta kosti 3ja daga fyrirvara.
Við misræmi á milli þessarar reglu og annarra opinberra reglna um hávaða, ónæði fyrir nágranna o.þ.h. gildir strangari reglan.

d) Óheimilt er að skilja sorp eftir fyrir utan íbúðir. Þar á meðal er bannað að geyma dekk og aðra muni sem valda óþrifnaði á sameignilegum svæðum, hvort sem er utan eða innan dyra. Slíkir munir verða fjarlægðir á kostnað eiganda að undangenginni einni skriflegri áminningu frá Nemendagörðum. Um sorplosun gilda reglur og leiðbeiningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

e) Öll meðferð, varsla og notkun skotvopna, annarra vopna og ólöglegra vímuefna er með öllu bönnuð á Nemendagörðum. Verði leigjandi eða gestur hans uppvís að því að hafa slíkt í fórum sínum getur það varðað brottrekstrarsök úr húsnæði Nemendagarða.

2. gr.

a) Við innflutning: Lyklar eru afhentir á opnunartíma þjónustuborðs Háskólans á Hólum, nema um annað sé samið fyrirfram. Verði leigjandi var við skemmdir eða aðra annmarka á húsnæðinu við innflutning, skal leigjandi láta umsjónarmann Nemendagarða vita skriflega á info@nemendagardar.is innan 2 daga frá afhendningu lykla.

b) Á leigutímabilinu: Íbúum er skylt að gera umsjónarmönnum Nemendagarða viðvart um ef bilanir eða skemmdir verða á húsnæðinu eða búnaði þess.

c) Við brottflutning: Leigjandi skal skila húsnæðinu eigi síðar en kl. 12.00 á síðasta degi leigusamnings, nema um annað sé samið fyrirfram. Leigjanda er ráðlagt að fylgja „Gátlista vegna skila á íbúðum Nemendagarða“ við brottflutning.

d) Leigjandi ber ábyrgð á að húsnæði og og öðru sem því tilheyrir sé skilað vel þrifnu og í góðu ástandi. Nemendagörðum er heimilt að innheimta gjald skv. gjaldskrá Nemendagarða ef þrifum er ábótavant. Ef skemmdir eru á eignum Nemendagarða við brottflutning eða leigjandi skilur eftir búnað sem Nemendagarðar þurfa að fjarlægja, áskilja Nemendagarðar sér rétt til að krefjast greiðslu vegna þessa.

e) Við flutning úr húsnæði ber leigjanda að panta úttekt með minnst þriggja virkra daga fyrirvara. Panta skal úttekt á info@nemendagardar.is Leigjandi skal vera til staðar við úttekt á húsnæðinu, ásamt fulltrúa frá Nemendagörðum. Sé leigjandi ekki til staðar við úttekt, getur hann ekki gert athugasemdir við úttektina eftir á.

3. gr.

a) Sækja þarf um skriflegt leyfi frá Nemendagörðum fyrir öllu dýrahald í húsnæði Nemendagarða. Nemendagarðar áskilja sér rétt til að hafna umsóknum sé dýrahaldið talið líklegt til að raska ró á svæðinu, valda ónæði fyrir nágranna eða skemmdum á eignum Nemendagarða. Slík leyfi eru eingöngu gefin þegar leigð er íbúð án húsgagna og ekki er talið að dýrahaldið valdi skaða á eignum Nemendagarða eða annarra. Allar skemmdir af völdum dýra er á ábyrgð eiganda þeirra.

b) Flytji leigjandi inn með dýr án leyfis varðar það sekt skv. gjaldskrá Nemendagarða. Leigjandi skal einnig flytja dýrið tafarlaust úr íbúðinni sé þess óskað af umsjónarmanni Nemendagarða. Verði leigutaki ekki við beiðni umsjónarmanns Nemendagarða telst slíkt brottrekstrarsök.

c) Eftirfarandi reglur gilda fyrir hverja tegund dýra:

  • Hundar: Óheimilt er að láta hunda ganga lausa á svæðum Nemendagarða og/eða Háskólans á Hólum. Einungis er leyfður einn hundur í hverri leigueiningu. Leigjandi skal einnig fylgja reglum Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna hundahalds. Greiða skal sérstakt tryggingargjald fyrir hundahald, skv. gjaldskrá Nemendagarða.

  • Kettir: Leigjandi skal fylgja reglum Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna kattahalds. Greiða skal sérstakt tryggingargjald fyrir kattahald, skv. gjaldskrá Nemendagarða.

  • Fuglar, nagdýr og önnur smádýr í búrum: Leyfileg hafi leyfi fengist skriflega frá umsjónamanni Nemendagarða.

  • Önnur dýr: Ekki leyfileg.

4. gr.

a) Reglur þessar eru settar skv. ákvæði í gildandi húsaleigusamningi og eru ætlaðar til þess að leigjendum séu ljósar skyldur þeirra bæði gagnvart Nemendagörðum og öðrum íbúum á svæðinu.

b) Brot á húsreglum getur leitt til uppsagnar eða riftunar á húsaleigusamningi. Séu fleiri leigjendur í sömu íbúð, bera allir jafna ábyrgð á brotum á húsreglum.

c) Um aðrar skyldur leigjenda og leigusala er vísað til ákvæða í húsaleigusamningi og húsaleigulaga nr. 36/1994.

Scroll to Top
Nemendagarðar Hólaskóla eru staðsettir í Hjaltadal í Skagafirði. Nemendagarðar leigja út húsnæði til nemenda Háskólans á Hólum. Á Hólum er að finna Háskólann á Hólum, grunnskóla, leikskóla, kirkju og hinar ýmsu gönguleiðir.